E. W. Hornung

Ernest William Hornung sem var af ungverskum ættum gaf út sína fyrstu sögu árið 1890, en hann skrifaði jöfnum höndum skáldsögur og smásögur. Þekktastur er hann þó fyrir sögur sínar um persónuna Raffles, sem á yfirborðinu var iðjulaus herramaður, en var um leið bíræfinn innbrotsþjófur. Hornung skrifaði fjölda smásagna um Raffles og auk þess eina skáldsögu í fullri lengd. Nutu sögurnar mikilla vinsælda og hafa bæði verið útfærðar fyrir leiksvið og kvikmyndaðar með stórleikurum eins og Cary Grant, David Niven, John Barrymore og Ronald Colman í aðalhlutverki.

Hornung fæddist í Middlesborough á Englandi af ungversku foreldri. Gekk hann í skóla þar í landi, en að honum loknum dvaldi hann um tíma í Frakklandi. Árið 1884 hélt Hornung til Ástralíu þar sem hann starfaði um tveggja ára skeið sem kennari. Hafði dvölin þar og sú reynsla sem hann hlaut þar á viðkvæmum aldri mikil áhrif á hann og má merkja þau áhrif víða í sögum hans.

Þegar hann sneri heim aftur til Englands 1886 giftist hann Constance Doyle. Var hún systir Arthurs Conans Doyles, höfundar sagnanna um Sherlock Holmes.

Fyrsta skáldsagan leit dagsins ljós árið 1890 og hét A Bride from the Bush og hlaut hún sæmilega dóma. Í kjölfarið fylgdu svo nokkrar misjafnar skáldsögur og smásagnasöfn þar sem m.a. má finna söguna To Catch a Thief, sem var kvikmynduð með þeim Cary Grant og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum.

Fyrstu sögurnar um A. J. Raffles birtust svo árið 1899 í blaðinu Strand, en sá bíræfni þjófur í dularklæðum virtist sannarlega hafa átt upp á pallborðið hjá lesendum. Á næstu árum komu svo út fleiri sögur um þjófinn geðþekka ásamt einni heilli skáldsögu.

Þau Hornung og Constance eignuðust einn son, en hann féll við Ypres í fyrri heimsstyrjöldinni. Tók Hornung sér það mjög nærri og skráði sig í kjölfarið í sjálfboðastarf hjá YMCA í Frakklandi. Hann dvaldi um tíma í skotgröfum með hermönnum í fyrri heimsstyrjöldinni og skrifaði lýsingu á þeirri reynslu sinni í bókinni Notes of a Camp Follower on the Western Front sem vakti töluverða athygli. Einnig skrifaði hann safn ljóða er tengdust stríðinu og hlutu lofsamlega dóma.

Hornung þótti einstaklega skemmtilegur maður og hafði yndi af samræðum og hafa margir lýst honum sem sannkölluðum samræðusnillingi. Þá var hann mikill krikketmaður og lét töluvert að sér kveða á þeim vettvangi.

Hornung lést í St. Jean de Luz í Frakklandi árið 1921.